TSDK 50

 
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  

Jólatónfundir, -tónleikar og heimsóknir í desember 2016

Tónleikar í nóvember og desember 2016

 

Haustfrí í Tónskólanum

Athugið:
Haustfrí verður í Tónskólanum frá og með föstudeginum 21. október til og með mánudeginum 
24. október.

Samstarf við Hólabrekkuskóla

Tónskólinn og Hólabrekkuskóli hófu samstarf sl. haust þar sem börn í 1. og 2. bekk koma reglulega yfir í Hraunberg og læra þar m.a. tónmennt og nótnalestur. Kennslan sem er í 6 vikna lotum fer aðallega fram í gengnum söng, leik, hreyfingu og hlustun. Þann 2. október lauk fyrstu lotunni og var efnt til samkomu þar sem foreldrum var boðið að koma og hlusta og áttu ánægjulega stund með börnunum og Diljá Sigursveinsdóttur kennara þeirra. Í ljós kom að þau hafa lært ótrúlega margt á þessum skamma tíma. Nokkrir nemendur úr Tónskólanum léku fyrir börnin og sýndu hljóðfærin sín, og svo fengu allir að prófa með aðstoð þeirra. Hér fylgja nokkrar svipmyndir frá músíkstundinni í Hraunbergi.

 

 

 

Kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna listframhaldsskóla

Eins og fram kom í fjölmiðlum í sumar auglýsti mennta- og menningarmálaráðuneytið í vor eftir aðilum til að reka listframhaldsskóla á sviði tónlistar. Kunnugt hefur verið um hugmyndir ráðherra í þessa veru um nokkurt skeið og þá jafnframt að ráðherra hefði tvo tónlistarskóla í Reykjavík í huga til að annast verkefnið. Kom þetta meðal annars fram á fundi stjórnar Samtaka tónlistarskólastjóra með ráðherra 13. febrúar 2015. Margir stjórnendur tónlistarskóla mótmæltu þessum áformum með bréfi 8. maí 2015 til alþingismanna og fleiri aðila.

Eftir auglýsinguna í vor sóttu tveir hópar tónlistarskóla um að gerast rekstraraðilar listframhaldsskóla, annars vegar Tónlistarskólinn í Reykjavík og Tónlistarskóli FÍH (TR/FÍH) og hins vegar Tónlistarskóli Kópavogs og Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar (TK/TSDK). Umsókn TK/TSDK var mjög metnaðarfull. Tilboðið var alls um 570 bls. að lengd að fylgiskjölum meðtöldum. Staðhæfa má að tilboðið var mun ítarlegra en krafa var gerð um. Meðal annars voru lagðar fram útfærðar námsbrauta- og áfangalýsingar. Hér má sjá tilboðið ásamt glærukynningu sem skólarnir útbjuggu, þar sem m.a. má finna rekstraráætlun.

Til að leggja mat á þessar tvær tillögur setti mennta- og menningarmálaráðherra á fót sérstaka matsnefnd. Niðurstaða fjögurra nefndarmanna af fimm var að tillaga TR/FÍH væri lítillega betri en tillaga TK/TSDK. Einn nefndarmanna gaf TK/TSDK hærri einkunn. Í heild fengu TR/FÍH 207 stig af 275 mögulegum en TK/TSDK fengu 202 stig. Í framhaldi af þessu ákvað ráðuneytið að ganga til samninga við TR/FÍH.

Skemmst er frá því að segja að við afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á tillögunum var að mati TK/TSDK brotið gegn mörgum grundvallarreglum stjórnsýslulaga. Í fyrsta lagi var beiðnum TK/TSDK um að fá aðgang að gögnum málsins mætt með þögninni einni, að því frátöldu að skólarnir fengu eftir mikinn eftirgang afrit af greinargerð matsnefndarinnar. Með þessu móti var andmælaréttur TK/TSDK virtur að vettugi við meðferð málsins. Í öðru lagi hefur ráðherra ekki látið skólunum í té rökstuðning fyrir ákvörðun sinni, þrátt fyrir lagaskyldu þar um. Í þriðja lagi gera skólarnir athugasemdir við skipan matsnefndarinnar.

TK/TSDK telja einnig að ráðherra hafi ekki valið betri tillöguna. Að mati skólanna hefur ekki verið sýnt fram á að tillaga TR/FÍH feli í sér faglega betri niðurstöðu - eða með orðum matsnefndarinnar að sú tillaga feli í sér "mun meiri sérhæfingu í tónlistarnámi á framhaldsstigi" en tillaga TK/TSDK. Á hinn bóginn er alveg ljóst að tillaga TK/TSDK er mun hagstæðari fjárhagslega fyrir hið opinbera. Munar þar tugum milljóna króna á hverju ári. Var gerð grein fyrir þessu í bréfi skólanna til ráðuneytisins 12. ágúst 2016 sem hér má sjá.

Vegna málsmeðferðar ráðuneytisins og efnislegrar niðurstöðu hafa TK/TSDK nú lagt fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis.

Eins og fram kemur í bréfinu frá 8. maí 2015 hafa margir tónlistarmenn lýst yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar hugmyndafræði sem felst í tillögunni um sérstakan listframhaldsskóla í tónlist. Stofnun slíks skóla, með þeim formerkjum sem virðist í bígerð, felur í sér að útvöldum tónlistarskólum er veitt sérstök aðstaða og fjármagn til kennslu á efsta stigi tónlistarnáms. Þrátt fyrir að TK/TSDK hafi lýst yfir áhuga sínum á því að taka að sér rekstur slíks skóla, telja fyrirsvarsmenn skólanna að vel megi taka undir þessar áhyggjur. Tekið skal fram að hugmyndir TK/TSDK, sem lagðar voru fyrir ráðuneytið, gerðu ráð fyrir því að nemendur utan Reykjavíkur gætu stundað tónlistarnám í heimabyggð. Fól það í sér að reiknað var með samstarfi allra viðkomandi tónlistarskóla um námið.